top of page
Search

Lokaverkefnið í Malawi

Ég heiti Guðlaug María Sveinbjörnsdóttir og er í MS námi í klínískri sálfræði, barnalínu, við Háskóla Íslands. Í sumar mun ég fara til Malawi að vinna að lokaverkefninu mínu í náminu, en þar er lítil sem engin sálfræðiþjónusta í boði fyrir íbúa Malawi. Leiðbeinandi verkefnisins er Urður Njarðvík, dósent við Háskóla Íslands.


Markmiðið verkefnisins er að fá yfirsýn yfir aðgengi og tegund meðferða sem er í boði fyrir börn sem greinast með hegðunarvanda, sérstaklega af völdum „cerebral“ malaríu en einnig af öðrum orsökum eins og ADHD og hegðunarraskanir. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að börn sem fá „cerebral“ malaríu (heilahimnubólgu af völdum malaríu) sýna verulegar hegðunarbreytingar eftir sýkinguna, sem lýsir sér helst sem ADHD einkenni. Almenningur kennir oftast foreldrum (sérstaklega mæðrum) um þessa hegðun og segja að þau séu ekki að ala börnin sín upp. Aðrir halda því fram að börnin séu haldin „illum öndum“ og loka þau inni eða láta særingarmenn meðhöndla þau í samræmi við það. Hagnýtingargildi verkefnisins er að finna leiðir til að leiðbeina foreldrum sem eiga börn með hegðunarvanda að nálgast vandann á réttan hátt. Ferðin í sumar snýst um gagnaöflun, þar sem rætt verður meðal annars við foreldra í Malawi, og verða þeir beðnir um að svara nokkrum fyrirfram ákveðnum spurningunum.


Ég mun reyna að vera svo dugleg að setja hingað inn á síðuna færslur um framvindu verkefnisins áður, á meðan og eftir að ég kem heim frá Malawi.


Ef einhverjum langar og hefur tök á að styrkja þetta verkefni, þá yrði ég mjög þakklát þar sem allur kostaður við verkefnið mun leggjast á mig. Fyrir utan ferðakostnað, þá kemur til með að falla kostnaður við verkefnið sem snýr að ferðakostnaði innanlands t.d. á svæði þar sem m.a. tíðni „cerebral“ malaríu er há, þýðingarkostnaður við að þýða spurningalistann yfir á chichawa (tungumálið í Malawi), kostnaður við að hafa túlk með sér þegar verið er að ræða við foreldrana, og þóknun til þeirra foreldra sem taka þátt og til þess læknis sem mun aðstoða mig á staðnum. Heildarkostnaðurinn fyrir ferðina verður því líklegast í kringum 550.000 ISK.


Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi verkefnið megi þið endilega senda á mig :)

bottom of page